Guðbjörg Guðjónsdóttir (1928 - 2013)

Í dag, mánudaginn 30. desember, kvöddum við Guðbjörgu  Guðjónsdóttur (f. 22. ágúst 1928 og d. 8. desember 2013), eða "Göggu frænku" eins og hún var oft kölluð í daglegu tali innan stórfjölskyldunnar. Láretta Sigríður Sigurjónsdóttir (1894-1978), amma mín, og Guðleif Guðmundína Oddsdóttir (1904-1930), móðir Göggu, voru hálfsystur. Þrátt fyrir að móðir Göggu hafi dáið frá henni ungri hélst gott samband á milli hennar og móðurfólks hennar í gegnum Sigurjónu Soffíu Sigurjónsdóttur (1896-1990), sem bjó mestan sinn búskap að Freyjugötu 17B. Sigga systir (eins og amma kallaði hana og við auðvitað líka) var einhver sú glaðlyndasta og hláturmildasta manneskja sem maður hefur nokkru sinni kynnst, en sannaðist á henni máltækið góða "að hláturinn lengir lífið".

Mín fyrstu kynni af Göggu frænku áttu líklega upphaf árið 1964 þegar hún dvaldi hjá afa og ömmu á Giljum í Hvolhreppi í einhverjar vikur um sumarið ásamt dætrum sínum þeim Margréti og Guðrúnu Ínu. Þær voru þar til að kynnast almennum sveitastörfum auk þess sem Gagga kunni nokkuð til verka í eldhúsinu. Þeirri hliðinni fékk maður að kynnast vel þegar ferðum til höfuðborgarinnar fjölgaði og eftir flutning "suður" vegna náms og starfa. Þá átti maður hauk í horni í Einholtinu og þangað var gott að koma eftir göngu upp Laugarveginn upp að Hlemmi í góðar móttökur og spjall við ágæta frænku. Af hennar fundi fór maður vel nærður, bæði á sál og líkama. Því Gagga bar sannarlega velferð frændfólks síns fyrir brjósti og vildi leggja sitt af mörkum til að öllu liði sem best. Ef hún hélt að eitthvað bjátaði á hjá fólki bauðst hún til að sjá til þess að beðið væri fyrir viðkomandi. Hvort slíkt hefur skilað einhverjum árangri eða hversu trúaður ég var á slíkt er óþarfi að fara út í, en engum held ég nú að það hafi gert mein. Það var hlýlegt og notalegt að sitja og spjalla við þau hjónin Einar H. Hjartarson (1925-1995) og Göggu, en Einar féll frá allt of ungur rétt nýkominn á eftirlaun. Það sópaði af honum og maður komst ekki upp með neinn moðreyk í samræðum við bráðskemmtilegan rannsóknarfulltrúann.

Að leiðarlokum vil ég þakka fyrir að hafa fengið að kynnast Göggu frænku og fyrir einstaklega skemmtileg kynni í fjölmörgum heimsóknum mínum til hennar á háskólaárunum. Aðstandendum öllum votta ég mína dýpstu samúð. Það er ljúft í minningunni að hafa fengið að kynnast jafn heilsteyptri manneskju og hún Gagga frænka óneitanlega var.

Ómar Bjarki Smárason


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Bjarki Smárason

Höfundur

Ómar Bjarki Smárason
Ómar Bjarki Smárason

jarðfræðingur á Jarðfræðistofunni Stapa

Netfang: stapi@xnet.is

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Gummi_Bjarna
  • Reykjavíkurbréf
  • ...ref_9_08_14
  • ...014_1233806
  • ...l_29_4_2014

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband