Guðmundur Jóhann Arason - minningarbrot

Í dag fylgdum við ágætum vini, Guðmundi Jóhanni Arasyni, síðasta spölinn í jarðvist hans. Útförin var alveg einstaklega falleg athöfn og vel skipulögð með fallegum tónlistaratriðum og bera börnum Gumma gott vitni.

Ég var svo heppinn að eiga þau Önnu og Gumma að nágrönnum á námsárunum í London. Á milli okkar var einungis um 20 mínútna gangur í gegnum gróskumikinn garð. Eins og þeim sæmir sem uppalinn er í sveit, þá var Gummi athafnasamur og eitt sinn man ég eftir honum uppi í tré þegar mig minnir að hann hafi boðið í grill. Hann var þá að saga af tré sem var orðið eitthvað ofvaxið. En grillboðin hans Gumma voru svolítið sérstök, stundum, því hann átti það til að skammta kolin á grillið það naumt að erfitt gat reynst að halda hita í steikinni undir lok steikingar. Þarna braust fram hin innbyggða aðhaldssemi þess sem ólst upp í afskekktri sveit þar sem lærðu að "fara vel með". Þó ég gerði mér ekki grein fyrir því þá, þá áttaði maður sig á því síðar hvað Gummi bar í raun mikinn svip af uppruna sínum úr Öræfum og Suðursveit, hógvær, góður sögumaður, traustur, bóngóður og auk þess og svo fluggáfaður að það kannski þvældist fyrir honum á stundum. Hann var líka fjári góðu húmoristi og húmorinn stundum svartur. Minnistæður er mér fyrst brandarinn sem hann sagði mér af sveitamanninum sem kom í bæjarferð og var boðið í bíltúr af þeim sem töldu sig sjóaðri. Sveitamaðurinn sat í aftursætinu fyrir aftan einhvern bæjargrallara sem allt í einu tók upp á því að fara að hrella gamlar konur með því að opna bílhurðina þegar ekið var fram hjá þeim, en alltaf missti hann af þeim. Svo kom að því að þeir óku hjá einni fullorðinni konu og sá sjóaði sagði, "æi, ég missti af henni" en sveitastrákurinn svaraði að bragði "allt í lagi, ég náð'enni"...! Kannski var Gummi með þessari dæmisögu að lýsa svolítið þeirri upplifun sem þar var fyrir ungan dreng að flytja úr örygginu í sveitinni í harðari heim borgarinnar?

Þeir sem ekki þekkja það hvað Skaftfellingar, og þá sérstaklega Öræfingar og Suðursveitungar, eru hógværir ættu að koma í fjárhús þar sem saman eru fé af Vestfjarðakjálkanum og úr Öræfum eða Suðursveit. Þetta upplifði ég eitt sinn hjá ágætum bónda á Austurlandi sem nýlega var búinn af fá lömb úr Suðursveit annars vegar og af Ströndum hins vegar. Hann hélt þeim aðskildum í fjárhúsinu. Það heyrðist varla hljóð úr krónni sem hýsti Suðursveitarlömbin á meðan lömbin af Ströndum þögnuðu varla. Það var ótrúlegt að upplifa það hvernig hegðan húsdýra endurspeglar mannlífið!

Einn af vinum Gumma, Axel Steindórsson, kom með stórkostlega sögu af sjálfsbjargarviðleitni Gumma varðandi bílaviðgerðir í minningargrein í Morgunblaðinu. Ég man óljóst eftir því þegar hann var kominn með vélina úr Cortínunni inn á stofugólf og vafalaust hefur hann leitað stuðnings við viðleitni sína til viðgerðanna en fengið lítinn. Læt þessa sögu fylgja hér með í krækju.....

Reyndar var ég búinn að gleyma því að bílnum hefði verið stolið og hvílíkt lán það nú var!

Það var gott að eiga Gumma að vini og þegar litið er til baka þá saknar maður þess vissulega að samverustundum skildi hafa fækkað með árunum, eða eftir að leiðir hans og Önnu skildu og börnin urðu stærri. En minningin um góðan vin og félaga mun lifa með manni að eilífu. Blessuð sé minning Guðmundar Jóhanns Arasonar.



Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Bjarki Smárason

Höfundur

Ómar Bjarki Smárason
Ómar Bjarki Smárason

jarðfræðingur á Jarðfræðistofunni Stapa

Netfang: stapi@xnet.is

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Gummi_Bjarna
  • Reykjavíkurbréf
  • ...ref_9_08_14
  • ...014_1233806
  • ...l_29_4_2014

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 73564

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband