Þjóð á villigötum?

Leitt er að horfa upp á landsbyggðina hnigna stöðugt og þurfa að horfa upp á vandræðagang stjórnmálamanna og ráðaleysi í baráttunni, eða kannski frekar hugmyndasnauð og baráttuleysi, til sporna við fólksflótta af landsbyggðinni á suðvesturhornið.

Hnignun landsbyggðarinnar er að stærstum hluta afleiðing af hinu alræmda kvótakerfi og tilflutningi aflaheimilda á fárra manna hendur. Þetta hefur haft þau áhrif að smábátaútgerð hefur að mestu lagst niður og trillukarlarnir eru deyjandi kynslóð. Með þeim hverfur vinnumenning sem fylgt hefur þjóðinni frá aldaöðli auk þess sem margir fyrrum trillukarlar hafa ekki fundið sér nýtt hlutverk svo geta má sér til um að þeir lifi heldur tilbreytingarlausu lífi og þeir finna sig yfirleitt ekki í hefðbundinni daglaunavinnu, sé hún á annað borð í boði.

Auk þess að skapa vinnu í landi við fiskvinnslu skapar trilluútgerð ýmis störf í landi við viðhald bátanna og tækjabúnaðar þeirra. Svo eiga þeir sumir maka og börnin þurfa skóla og fjölskyldurnar ýmsa aðra þjónustu, eins og alkunna er.

Á síðari árum hefur verið gerð tilraun með úthlutun á byggðakvóta til nokkurra staða á landinu. Við þetta færist líf í þá staði sem njóta þessara "forréttinda". Sá hængur er þó á þessu fyrirkomulagi að þeir sem stunda veiðarnar virðast einkum aðkomumenn sem nota þá staði sem þeir gera út frá sem svefnstað. Það eina sem þeir skila til viðkomandi byggðarlags er því einungis bundið við kaup á gistingu og veitingum, auk þessa kaupa einhvern kost fyrir daginn. Fiskurinn er fluttur burtu og það eina sem situr eftir er eitthvað smáræði hjá veitingamanninum, hótelhaldaranum, kaupmanninum og hafnarsjóði. Þessi aðgerð er því nokkuð augljóslega sýndarmennska sem leysir engin vandamál viðkomandi byggðar heldur stráir þetta bara salti í sár atvinnuleysisins á viðkomandi stað.

Stjórnmálamenn sem vilja láta taka sig alvarlega og sem hafa áhuga á að vinna fyrir fólkið í landinu en eru ekki í stjórnmálum einungis til að þjóna þröngum  hagsmunahópum og mylja í leiðinni undir sig sjálfa þurfa að gera átak í atvinnumálum landsbyggðarinnar. Með því að styðja við útgerð og leyfa sjálfsagðar veiðar út frá bæjum við sjávarsíðuna má snúa vörn í sókn. Með því móti fæst sjálfsögð nýting á staðbundna fiskistofna og annað sjávarfang. Það er nefnilega ýmislegt fleira en þorskur og ýsa sem hægt er að nýta. Og með auknum fjölda ferðamanna geta ýmsir staðir á landsbyggðinni skapað sér sérstöðu og boðið upp á rétti sem eiga uppruna af svæðinu og eru því "léttfetar" í kolefnisspori. Það er nefnilega grátlegt að geta ekki fengið "fisk dagsins" í sjávarbyggðum víða um landið án þess að vera boðið upp á einhvern frystan "togarafisk". Svona nokkuð á ekki að viðgangast hjá fiskveiðiþjóð.

Það er áhugavert að fylgjast með þeim ferðaþjónustustöðum sem eru að gera góða hluti víða um land og að upplifa það að erlendir gestir framlengja dvöl sína um eina eða fleiri nætur á sama staðnum til að geta notið sérstæðs matar á borð við "tvíreykt hangiket". Að þessu varð ég vitni í Vogafjósi við Mývatn s.l. haust. Hali í Suðursveit, er annar staður þar sem vel hefur tekist til, en þar er boðið upp á góða rétti úr lamakjöti af staðnum auk bleikju sem alin er á staðnum. Á báðum þessum stöðum er vel bókað í gistingu flesta daga ársins.

Á lítið hótel á Austurlandi komu fyrir nokkrum árum fjórir Spánverjar óvænt í kvöldmat og vildu "fisk dagsins". Af tilviljun var "trillukarl" á staðnum nýlega kominn í land með nokkra þorska. Hótelhaldarinn fékk hjá honum þorsk sem hann eldaði heilan og bar á borð fyrir gesti sína, þeim til mikillar gleði og ánægju. Gott væri ef hægt væri að bjóða upp á skelfisk, ígulker og ýmislegt annað góðgæti til að lífga upp á matarmenningu í landinu. Það kemur enginn ferðamaður hingað til að borða hamborgara á N1 eða í öðrum sjoppum landsins þó flestir eigi vissulega að fá að smakka á okkar ágæta þjóðarrétti, pylsu og kók, prince póló og helst ís á eftir frá Emmess eða Kjörís.

Til að hleypa lífi í atvinnu arkitekta og smiða mætti gera átak í því að gera upp "eyðibýli" og hús sem ekki er verið að nýta víða í hinum dreifðu byggðum landsins. Þarna eru mikil og vannýtt tækifæri sem full ástæða er að veita gaum. Síðustu tvö árin hefur verið í gangi átaksverkefni þar sem eyðibýli landsins eru skráð og mynduð. Afrakstur þessarar vinnu hefur verið gefin út í bókum fyrir hvert svæði og vonandi tekst að ljúka þessu verki á næstu tveimur árum. En það er ekki nóg að skrá þessi gömlu ónýttu hús, sem mörg eru ónýt og önnur liggja undir skemmdum og koma til með að verða engum til gangs í framtíðinni ef ekki verður gert átak í að gera þau upp og koma þeim í notkun. Ef þessum húsum væri komið í nýtingu kæmum við til með að fá hingað ferðamenn, einkum barnafjölskyldur og fólk á eftirlaunaaldri, sem kæmu hingað til lengri dvalar en hinn hefðbundni ferðamaður. Slíkir ferðamenn skilja meira eftir sig en þeir sem einungis koma hingað til styttri dvalar.

Ég hef átt því láni að fagna að ferðast nokkuð víða um heiminn í tengslum við mína vinnu og hef þá, líkt og hér á landi, farið um dreifðari byggðir þeirra landa sem hef heimsótt. Það kom mér verulega á óvart að í Ástralíu er verðmætasti ferðamaðurinn hinir svokölluðu "backpackers" því þeir dvelja lengur en aðrir og kaupa þar af leiðandi meiri þjónustu. Hér á landi höfum var þetta fólk kallaður "bakpokalýður" og svei mér þá ef ekki var litið á þá sem hálfgerðar "afætur" á þjóðfélaginu af því að þeir keyptu sér ekki far með hópferðabílum eða áætlunarferðum í kringum landið, heldur ferðuðust meiri hluta leiðarinnar á puttanum. En kannski var þessi nafngift byggð á misskilningi eftir allt saman?

Og talandi um "afætur" þá má e.t.v. velta fyrir sér hvort þeir sem njóta mestrar virðingar stjórnmálamanna okkar í dag og velta hér hæstum fjárhæðum séu ekki í raun til lengri tíma litið ekki brauðvinningar þjóðarinnar, heldur miklu fremur afætur? Það er nefnilega ekki alltaf allt sem sýnist og bankakerfi og útgerðir sem sjúga til sín auðæfi heillar þjóðar eru líklega frekar að vinna að hagsmunum fárra en skila meirihluta þjóðarinnar eftir í einskonar tómarúmi sem erfitt virðist að fylla.

Ágætu stjórnmálamenn sem viljið láta gott af ykkur leiða, því til þess hljótið þið að vera í stjórnmálum, hugsið nú um hagsmuni þjóðarinnar en ekki "auðvisanna".

Byggjum betra Ísland til framtíðar!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikta E

Ég setti pistilinn þinn inn á fésbókina 

Benedikta E, 24.3.2013 kl. 15:29

2 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Takk fyrir það Benedikta :)

Nú bíð ég bara eftir því að einhver framámaður úr stjórnmálaflokkunum hringi í mig og bjóði mér "örrugt sæti" fyrir kosningarnar í apríl....!

Ómar Bjarki Smárason, 24.3.2013 kl. 16:01

3 Smámynd: Andrés Skúlason

Svo þú ert bara á leiðinni í framboð - mér heyrðist á Þorvaldi í dag í Silfrinu að þeim vantaði einhverja til að leiða Alþýðufylkinguna einmitt út á landi, ert þú ekki bara sjálfkjörinn.

Andrés Skúlason, 24.3.2013 kl. 23:12

4 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Maður fer nú ekki að vaða út í einhverja óvissu, Andrés. Það kemur auðvitað ekkert annað til mála en öruggt sæti. Það stendur mér kannski helst fyrir þrifum að ég skuli ekki búa í Garðabænum. Það væri gott að geta skipt einhverjum út í Kraganum, eða hvað þessi kjördæmi nú heita..... En kannski er minn tími ekki kominn og ég verð að bíða um sinn....!

Ómar Bjarki Smárason, 24.3.2013 kl. 23:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Bjarki Smárason

Höfundur

Ómar Bjarki Smárason
Ómar Bjarki Smárason

jarðfræðingur á Jarðfræðistofunni Stapa

Netfang: stapi@xnet.is

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Gummi_Bjarna
  • Reykjavíkurbréf
  • ...ref_9_08_14
  • ...014_1233806
  • ...l_29_4_2014

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 73564

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband