Tækfæri í ferðaþjónustu

Nú þurfa aðilar í ferðaþjónustu, að ráðherra ferðamála meðtöldum, að hafa hraðar hendur fyrir veturinn og koma upp aðstöðu á Sprengisandi þannig að hægt sé að taka á móti ferðamönnum.

Það mætti vel hugsa sér að nýta vinnubúðirnar á Reyðarfirði í slíkt verkefni. Þær myndu sóma sér betur á sem bráðabirgðahúsnæði á hálendinu fremur en framtíðarhótel í byggð....


mbl.is Gýs á ný í Holuhrauni - myndskeið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirsjá í Kristni og pistlunum frá Spáni...

Það er sorglegt að heyra að pistlarnir hans Kristins eigi nú að hverfa úr Síðdegisútvarpinu.

Verð að viðurkenna að ég hefði frekar viljað sjá af bænastundum kvölds og morgna, enda Kristinn kannski fastari í hendi en hinn eingetni Jesú og meintur faðir sem tilbeðnir eru.....


mbl.is „Kosta þó ekki neinar fúlgur fjár“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jarðfræðistofnun Íslands - Icelandic Geological Survey

Atburðir síðustu tveggja vikna við norðanverða Vatnajökul ættu að hafa leitt stjórnvöldum fyrir sjónir mikilvægi þess að þekking þess landshluta sé sem best þekktur. Því er mikilvægt að þeim stofnunum sem ætlað er það hlutverk sé gert mögulegt að sinna þeim verkefnum sem þeim er ætlað samkvæmt lögum.

 Það er það hlutverk Náttúrufræðistofnunar að sinna jarðfræðikortlagningu landsins, eða a.m.k. að hafa umsjón með því verkefni. Sá hluti stofnunarinnar hefur hins vegar verið í slíku fjársvelti að ekki hefur verið hægt að sinna þessu hlutverki sem skyldi.

Eins og fram kemur í viðtalinu við forstjóra Ísor þá hefur sú stofnun staðið að útgáfu jarðfræðikorta og þeir eiga í fórum sínum drög að korti af svæðinu norðan Vatnajökuls. Þetta er afrakstur áratuga vinnu á við kortlagningu á hálendi landsins vegna virkjanaundirbúnings sem Orkustofnun sá um á sínum tíma. Sjálfsagt er að setja kraft í þá vinnu við að gefa þessi kort út og hraða þarf þeirri vinnu og ljúka henni áður en þeir sem unnu verkið verða allir komnir á eftirlaun og þekkingin á þessum svæðum gæti þar með tapast. Einnig er mikilvægt að yngri kynslóðir jarðfræðinga fái þjálfun útivinnu og kortagerð og samnýta færni hinna eldri og reyndar og þeirra sem e.t.v. hafa betri tök á tækninni. Það má hins vegar velta fyrir sér hvar þessi vinna ætti að fara fram.

 Eins og að ofan greinir þá er það lögbundið hlutverk Náttúrufræðistofnunar að hafa umsjón með jarðfræðikortagerð af landinu þó þeim sem við það starfa hafi ekki verið gert mögulegt að sinna því verkefni svo viðunandi sé. Til þess að koma þessum málum í sem bestan farveg væri e.t.v. eðlilegast að jarðfræðikortadeild Ísor yrði sameinuð jarðfræðisviði Náttúrufræðistofnunar og þannig myndaður grunnur að Jarðfræðistofnun Íslands? Þetta er auðvelt í sjálfu sér eins og málum er nú háttað, því báðar þessar stofnanir eru undir Umhverfisráðuneytinu eins undarlegt sem það kann að hljóma, því Ísor starfar "með forgjöf" í samkeppni á ráðgjafamarkaði á meðan Náttúrfræðistofnun sinnir lögbundnum verkefnum af veikum mætti.

Það má vel hugsa sér að hin nýja Jarðfræðistofnun Íslands ráði undirverktaka af frjálsa markaðnum til að sinna kortlagningu á afmörkuðum svæðum, en mikilvægt er að þekkingin og verkstjórnin verði miðlæg.

Þannig gæti Ísor orðið undirverktaki við gerð korta af þeim svæðum sem þeir hafa þegar unnið við. En það gefur reyndar auga leið að fyrst þarf að leiðrétta þá tímaskekkju sem sú stofnun er. Hennar helsta hlutverk í dag virðist vera að koma í veg fyrir að jarðfræðiráðgjöf dafni með eðlilegum hætti á frjálsum markaði, sem hún getur í krafti einokunar undir verndarvæng ríkisins. Henni er t.d. skipuð stjórn þar sem hluti stjórnarmanna hafa á sama tíma setið sem verkefnisstjóri rammaáætlunar auk þess sem í stjórninni situr lögfræðingur og deildarstjóri úr Atvinnuvegaráðuneytinu (iðnaðarráðuneytinu). Þarna eru augljósir hagsmunaárekstrar sem Samkeppniseftirlitið ætti auðvitað að taka til skoðunar. Það er t.d. alveg fráleitt að það ráðgjafar á frjálsum markaði skuli ekki geta leitað inn í ráðuneytin með sín mál án þess að eiga á hættu að málin lendi hjá aðilum sem sitja í stjórnum fyrirtækja sem þeir eiga í samkeppni við!

Nú er tækifæri til að setja kraft í jarðfræðirannsóknir og leiðrétta í leiðinni það "misgengi" sem verið hefur í gangi með því að ríkið sé í samkeppni við einkafyrirtæki á þessum markaði. Fjármögnun á þessu ætti að vera auðveld með gjaldi á þeirrar orku sem aflað hefur verið í krafti þessara rannsókna, bæði jarðhiti og vatnsafl.

Kannski getur Holuhraun orðið það "Matarholuhraun" sem veltir þessum bolta af stað.....?

Vonandi tekur umhverfisráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson myndarlega á þessu máli hið fyrsta.....


mbl.is Virknin við upptök Holuhrauns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litlu mikilvægu ráðuneytin má ekki vanrækja

Vonandi hafa augu forystumanna ríkisstjórnarinnar, þ.e. forsætisráðherra og fjármálaráðherra, opnast fyrir mikilvægi ráðuneyta umhverfismála og dómsmála í tengslum við atburði síðust viku og reyndar mánaða. Það er ákaflega mikilvægt að þessi litlu ráðuneyti séu vel mönnuð og sjálfstæð. Segja má að annað gæti hagsmuna íslenskrar náttúru en hitt fólksins sem byggir landið eða vill flytjast hingað og taka þátt í lífi og störfum íslenskrar þjóðar....

Núverandi tilhögun í þessum ágætu ráðneytum er alveg fráleit því þau rekast illa með öðrum stærri málaflokkum og hagsmunaárekstrar hjá þeim sem stýra þeim eru óhjákvæmilegir, eins og dæmin sanna t.d. hvað varðar framkvæmdir í Gálgahrauni þar sem lögregla dómsmála var send á mótmælendur við framkvæmd samgöngumála.....


mbl.is Borða Hraun og drekka gos
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru siðferðisbrestir hugsanlega stærsti vandi stjórnmálanna...?

Maður staldrar aðeins við fyrsta kaflann í annars ágætu Reykjavíkurbréfi helgarinnar. Tónninn í því hræðir nefnilega, því skilaboðin sem ég les úr þeim tóni sem þar er gefinn felur nefnilega í sér augljósa og ódulda andúð á "siðareglum". Þær séu til lítils gagns. Annað verður vart úr pistlinum lesið.

Í ljósi þess sem á undan er gengið í íslenskum stjórnmálum undangegna tvo (kannski þrjá samkvæmt Styrmi) áratugi þá verður ekki annað séð en að höfundur Reykjavíkurbréfsins hafi horn í síðu siðareglna, en leiða má að því getum að hefðu slíkar reglur verið í gildi í þeim ríkisstjórnum sem hann leiddi sem forsætisráðherra, þá væri íslensk þjóð e.t.v. betur á vegi stödd í dag en raun ber vitni. Það má nefnilega velta alvarlega fyrir sér hvort útfærsla kvótakerfisins og sala bankana standist reglur um góða stjórnsýslu eða almenn siðfræði í viðskiptum á jafnræðisgrunni?

Annað einkenni í stefnu þeirrar "pólitísku klíku" sem ritstjórinn (og væntanlega höfundur Reykjavíkurbréfsins), er andstaðan við allt virkt eftirlit með stjórnaherrunum. Þannig lagði hann niður Þjóðhagsstofnun af því að hún var að þvælast fyrir og nú er allt reynt til að gera Umboðsmann Alþingis tortryggilegan af því að hann er að reyna að vinna vinnuna sína. Það virðist henta þessum öflum betur að eftirlitsstofnanir séu duglausar og sitji aðgerðarlausar á meðan ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa sitt fram með góðu eða illu!

 Reykjavíkurbréf


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þið eruð undarleg þjóð!

Hvað er eiginlega að gerast í íslensku þjóðfélagi?

1) Rússar virðast hafa ákveðið að halda okkur fyrir utan sínar refsiaðgerðir og vilja gjarnan eiga við okkur viðskipti áfram. Nú - hvað gerum við í því? Fulltrúar einhvers flokks sem kallast víst Vinstri Grænir vill fá skýringar á þessu. Væri nú ekki viturlega að hafa hljótt um þetta þannig að íslenskt þjóðfélag hafi sem minnstan skaða af....?

2) Stjarnan dregst á móti einu sterkasta félagslið heims heims í fótbolta. Og hvað gerist? Leikmenn Stjörnunnar fá þessar fréttir í flugvél á leið heim frá Póllandi og þeir tryllast af fögnuði! Langar þá ekki að komast lengra í þessari keppni, eða hvað...?!

3) Umboðsmaður Alþingis er hagsmunagæsluaðili þjóðarinnar gagnvart framkvæmdavaldinu. Hann er að reyna að komast til botns í máli sem nauðsynlegt er að fá út af borðinu til þess að innanríkisráðuneytið verði starfhæft á nú. Nú hvað gerist? "Sendiherrar" ákveðinna afla þjóðarinnar fara nánast á límingunum og reyna hvað þeir geta til að gera málið pólitískt, þegar það er í raun bara spurning um siðfræði og góða og sanngjarna stjórnsýslu. 

4) Er nema von að flóttamenn úr öllum heimshornum líti á Ísland sem "hæli".....?


Einn á hjóli - framtíð Sjálfstæðisflokkisins í Reykjavík...?

Sjálfstæðisflokkurinn þarf að taka til í sínum ranni og efla innra starf flokksins og gera hann meira aðlaðandi fyrir yngri kynslóðirnar. Það ekki gerast í gegnum Heimdall þar sem "öfga hægri" sjónarmið eru oftar en ekki nokkuð áberandi. Flokkurinn þarf að gera upp við fortíð sína og hætta að hampa þeim sem í raun komu flokknum í þá vandræðalegu stöðu sem hann er í um þessar mundir víðast hvar um landið. Stefnumálinn í Reykjavík þurfa að vera hnitmiðuð og skýr. Flokkurinn þarf að þora að taka afstöðu með flugvellinum í Vatnsmýrinni á meðan ekki finnast betri lausnir fyrir innanlandsflugið. Einnig þarf hann að marka skýra stefnu í skipulagsmálum því flokkurinn mun nánast deyja drottni sínum í Reykjavík fari flugvöllurinn og þétting byggðar verði með þeim hætti sem Samfylkingin stefnir þá flokkurinn líklega enga framtíð fyrir sér því þeir sem búa í leiguhúsnæði í miðbæ slíkrar borgar munu seint kjósa hægri sinnaðan flokk.

Af hverju ekki að leyfa Reykjavík að hafa sína sérstöðu með opið miðbæjarsvæði með greiðum samgöngum inn til miðbæjarins jafnt í lofti sem á láði og legi því með því hefur hún aðdráttarafl á sínum eigin forsendum en ekki vegna hefðbundnara borgarskipulags....

En ef fram fer sem horfir og flokkurinn aðhefst ekkert til að bæta sína stöðu þá gæti hann í einhverjum af næstu borgarstjórnarkosningum endað sem flokkur með fulltrúa sem væri bara "einn á hjóli".... Ef það er það sen forysta flokksins vill, nú þá er hún á réttri leið..... hárréttri leið!


Heilsugæsla á villigötum?

Í vikunni þurfti ég að endurnýja lyfseðil og þar sem ég er úti á landi þá getur verið snúið að reyna að ná sambandi við heimilislækninn á þeim 45 mínútum sem hann er með símatíma rétt fyrir hádegið. Því hringdi ég í skiptiborðið til að kanna hvaða möguleikar voru í stöðunni. Þetta var á fimmtudegi og enginn annar læknir á Heilsugæslunni á símavakt þann daginn og hjúkrunarfræðingurinn ekki við á föstudagsmorgninum. Þar sem ég var ekki viss um að geta náð í lækninn minn í símatíma hans á föstudeginum þá spurði ég konuna á skiptiborðinu hvort hún gæti nú ekki skrifa á miða hvað mig vanhagaði um og fengið læknum miðann svo hann gæti skellt lyfseðli á "gáttina" og málið afgreitt. Ekki var nú þessari bón minni vel tekið og svarið sem ég fékk var "við myndum nú ekki gera neitt annað allan daginn". Svo stakk hún upp á því að ég hefði samband við lækni á því svæði sem ég var staddur á. Varla hefur hann aðgang að mínum sjúkraskrám og því hefði hann orðið að skrifa út lyfseðil á eitthvað sem hefði sagt honum! Það er nú kannski full þörf fyrir aukna þjónustu hjá heilsugæslustöðvunum, hugsaði ég og þakkaði pent fyrir. Svo hafði ég samband við sérfræðing sem ég hef farið til og sendi honum sms um það sem mig vantaði og hann sendi svar um hæl hálftíma síðar og sagði málið afgreitt. Það kalla ég góða þjónustu og velti fyrir mér hvert sé í raun vandamál Heilsugæslunnar? Kannski eru þau mörg og ekki öll hjá sjúklingunum!


Guðmundur Jóhann Arason - minnigarbrot 2

"Já þetta er frábær hugmynd" - "frábært" - "einmitt" - "já satt segirðu"...... þetta eru "frasar" sem manni eru minnisstæðir af samskiptum við hann Gumma. Og hvernig má það vera að maður með svona jákvætt hugarfar skuli hafa átt svo erfitt hið innra....? Maðurinn var auðvitað "nörd" í bestu merkingu þess orðs og líf nördsins er líklega ekki alltaf auðvelt því hann lifir í svolítið öðrum heimi en flestir þeir sem í kringum hann eru. Að þessu þarf e.t.v. að huga þannig að nörda, frumkvöðlar og aðrir sem hugsa svolítið "út fyrir boxið" sé búið það umhverfi sem þeim hentar til að þeir geti einbeitt sér að því sem þeir taka sér fyrir hendur hverju sinni og nýtist þannig bæði sjálfum sér og samfélaginu sem best. Vonandi ná samstarfsmenn Gumma að halda þeim verkefnum áfram sem hann lagði grunn að þannig að lífsstarf hans megi nýtast komandi kynslóðum sem allra allra best. Það færi einmitt alveg "frábært".....

Jákvæðni Gumma var við brugðið og nánast alltaf hægt að treysta því að hann tæki vel í hugmyndir sem fyrir hann voru lagðar. Þannig æxlaðist það t.d. að hann og Magnús vinur hans urðu mér samferða þegar ég átti leið til Írlands á námsárunum á Englandi til fundar við jarðfræðing sem vann að doktorsverkefni á Connemara á vesturströnd Írlands. Ég átti bókaða ferð snemma morguns með ferju til Dublin frá Holyhead á eyjunni Anglesey í Wales og þurfti því annað hvort að keyra um nóttina, því ferðin þessar rúmlega 300 mílur tók að lágmarki einar 5-6 klst, eða ferðast daginn áður og gista í nágrenni Holyhead. Þegar það kom upp í umræðunni að þeir Gummi og gestur hans, Magnús, yrðu mér samferða og við gistum í litlu tjaldi sem ég hafði með í för, þá tóku þeir félagar afar vel í það og litu á það sem ævintýri. Þetta varð úr og við fórum til Holyhead og tjölduðum þar og sváfum vært fram á morgun. Þó ég muni ferðina sem slíka ekki í smáatriðum þá man ég það hins vegar hversu undarleg sú tilfinning var að vekja syfjaða ferðafélaga mína þannig að ég gæti tekið saman tjaldið og haldið ekið um borð í ferjuna á tilsettum tíma. Þeir voru heldur syfjulegir og vegalausir félagarnir þegar þar sem leiðir okkar skildu og á einhvern hátt komust þeir félagarnir til baka heim til New Malden í suðvesturjaðri London. Og ekki minnist ég þess að Gummi hafi erft það við mig að hafa skilið þá félaga eftir vegalausa þarna í Norður Wales. Og Magnús heilsar mér enn þá þegar við mætumst á götu.....

Það er gaman að rifja upp svona atvik frá námsárunum, þegar tíminn hafði allt annað gildi en hann hefur þegar komið er út í lífsbaráttuna og það er mikilvægt fyrir ungt fólk á öllum aldri "að grípa gæsina þegar hún gefst" því eins og tíminn er gæsin er stygg og áður en maður veit af er hún flogin á braut....


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Guðmundur Jóhann Arason - minningarbrot

Í dag fylgdum við ágætum vini, Guðmundi Jóhanni Arasyni, síðasta spölinn í jarðvist hans. Útförin var alveg einstaklega falleg athöfn og vel skipulögð með fallegum tónlistaratriðum og bera börnum Gumma gott vitni.

Ég var svo heppinn að eiga þau Önnu og Gumma að nágrönnum á námsárunum í London. Á milli okkar var einungis um 20 mínútna gangur í gegnum gróskumikinn garð. Eins og þeim sæmir sem uppalinn er í sveit, þá var Gummi athafnasamur og eitt sinn man ég eftir honum uppi í tré þegar mig minnir að hann hafi boðið í grill. Hann var þá að saga af tré sem var orðið eitthvað ofvaxið. En grillboðin hans Gumma voru svolítið sérstök, stundum, því hann átti það til að skammta kolin á grillið það naumt að erfitt gat reynst að halda hita í steikinni undir lok steikingar. Þarna braust fram hin innbyggða aðhaldssemi þess sem ólst upp í afskekktri sveit þar sem lærðu að "fara vel með". Þó ég gerði mér ekki grein fyrir því þá, þá áttaði maður sig á því síðar hvað Gummi bar í raun mikinn svip af uppruna sínum úr Öræfum og Suðursveit, hógvær, góður sögumaður, traustur, bóngóður og auk þess og svo fluggáfaður að það kannski þvældist fyrir honum á stundum. Hann var líka fjári góðu húmoristi og húmorinn stundum svartur. Minnistæður er mér fyrst brandarinn sem hann sagði mér af sveitamanninum sem kom í bæjarferð og var boðið í bíltúr af þeim sem töldu sig sjóaðri. Sveitamaðurinn sat í aftursætinu fyrir aftan einhvern bæjargrallara sem allt í einu tók upp á því að fara að hrella gamlar konur með því að opna bílhurðina þegar ekið var fram hjá þeim, en alltaf missti hann af þeim. Svo kom að því að þeir óku hjá einni fullorðinni konu og sá sjóaði sagði, "æi, ég missti af henni" en sveitastrákurinn svaraði að bragði "allt í lagi, ég náð'enni"...! Kannski var Gummi með þessari dæmisögu að lýsa svolítið þeirri upplifun sem þar var fyrir ungan dreng að flytja úr örygginu í sveitinni í harðari heim borgarinnar?

Þeir sem ekki þekkja það hvað Skaftfellingar, og þá sérstaklega Öræfingar og Suðursveitungar, eru hógværir ættu að koma í fjárhús þar sem saman eru fé af Vestfjarðakjálkanum og úr Öræfum eða Suðursveit. Þetta upplifði ég eitt sinn hjá ágætum bónda á Austurlandi sem nýlega var búinn af fá lömb úr Suðursveit annars vegar og af Ströndum hins vegar. Hann hélt þeim aðskildum í fjárhúsinu. Það heyrðist varla hljóð úr krónni sem hýsti Suðursveitarlömbin á meðan lömbin af Ströndum þögnuðu varla. Það var ótrúlegt að upplifa það hvernig hegðan húsdýra endurspeglar mannlífið!

Einn af vinum Gumma, Axel Steindórsson, kom með stórkostlega sögu af sjálfsbjargarviðleitni Gumma varðandi bílaviðgerðir í minningargrein í Morgunblaðinu. Ég man óljóst eftir því þegar hann var kominn með vélina úr Cortínunni inn á stofugólf og vafalaust hefur hann leitað stuðnings við viðleitni sína til viðgerðanna en fengið lítinn. Læt þessa sögu fylgja hér með í krækju.....

Reyndar var ég búinn að gleyma því að bílnum hefði verið stolið og hvílíkt lán það nú var!

Það var gott að eiga Gumma að vini og þegar litið er til baka þá saknar maður þess vissulega að samverustundum skildi hafa fækkað með árunum, eða eftir að leiðir hans og Önnu skildu og börnin urðu stærri. En minningin um góðan vin og félaga mun lifa með manni að eilífu. Blessuð sé minning Guðmundar Jóhanns Arasonar.



Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Ómar Bjarki Smárason

Höfundur

Ómar Bjarki Smárason
Ómar Bjarki Smárason

jarðfræðingur á Jarðfræðistofunni Stapa

Netfang: stapi@xnet.is

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Gummi_Bjarna
  • Reykjavíkurbréf
  • ...ref_9_08_14
  • ...014_1233806
  • ...l_29_4_2014

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 73493

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband